Eyðibýli á Íslandi

Rannsóknin - Eyðibýli á Íslandi

Í sveitum landsins er fjöldi eyðibýla og yfirgefinna íbúðarhúsa sem mörg hver eru vel byggð og geyma merka sögu. Markmið verkefnisins Eyðibýli á Íslandi er að rannsaka og skrá umfang og menningarlegt vægi eyðibýla og annarra yfirgefinna íbúðarhúsa í sveitum landsins. Jafnframt að stuðla að björgun áhugaverðra og byggingarsögulega mikilvægra húsa, m.a. með endurgerð og nýtingu í ferðaþjónustu. Þegar verkefninu lýkur liggur fyrir verðmætur þekkingargrunnur um búsetu og líf Íslendinga fyrr á tímum.

Fyrstu skref verkefnisins voru tekin sumarið 2011 þegar rannsókn fór fram á eyðibýlum og yfirgefnum húsum á Suðurlandi. Afraksturinn var heildstætt yfirlit um 103 yfirgefin hús sem kom út í veglegu riti, Eyðibýli á Íslandi. Sumarið 2012 náði rannsóknin yfir tvo landshluta, Norðurland eystra og Vesturland. Þá voru skráð 236 hús og gefin út tvö bindi af ritinu. Sumarið 2013 náði rannsóknin til Vestfjarða annars vegar og Norðurlands vestra hins vegar. Þá voru 217 hús rannsökuð og gefin út tvö bindi. Rannsókninni lauk sumarið 2014 þegar hús í Norður-Múlasýslu og Suður-Múlasýslu voru rannsökuð auk húsa í Árnessýslu, Gullbringusýslu, Kjósarsýslu og Vestmannaeyjum, alls 84 hús. Í viðauka síðasta bindisins, 7. bindis, er auk þess fjallað um 4 hús. Rannsóknin í heild sinni nær því alls til 748 húsa.

Hugtakið eyðibýli er hér notað í nokkuð þröngum skilningi. Rannsókn nær til yfirgefinna íbúðarhúsa í sveitum landsins sem ekki hafa verið tekin til annarra nota. Þau skilyrði eru gefin að húsið hafi a.m.k. fjóra uppistandandi útveggi. Húsin þurfa ekki endilega að standa á eyðijörð heldur geta þau staðið á jörð í búnytjum. Eyðibýli geta haft mikla þýðingu af ýmsum ástæðum. Þau geta verið merkar menningarminjar og mikilvægar heimildir um byggðasögu. Aldur húsanna, húsagerð eða byggingarlag þeirra getur verið sérstakt en einnig er sérstaða húsanna í búsetulandslagi sveitanna oft mikil.

Markmið verkefnisins er að meta menningarlegt vægi einstakra húsa og varðveita þannig valin yfirgefin hús á Íslandi. Í framhaldinu að kanna hvort grundvöllur sé fyrir því að eyðibýli og yfirgefin hún í sveitum landsins verði gerð upp af eigendum þeirra og/eða stofnað félag um rekstur og útleigu þeirra í ferðaþjónustu. Verkefnið var tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands, Menningarverðlauna DV og Hvatningarverðlauna iðnaðarráðherra árið 2011.

Með tíð og tíma mun ritröðin Eyðibýli á Íslandi ná yfir öll yfirgefin íbúðarhús í sveitum landsins.
Verkefnið er unnnið að frumkvæði og í samstarfi við Glámu Kím arkitektastofu, R3-Ráðgjöf ehf. og Stapa-Jarðfræðistofu. Fjölmargir hafa stutt við verkefnið og hafa m.a. eftirtaldir aðilar veitt því fjárhagslega styrki:
- Nýsköpunarsjóður námsmanna.
- Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
- Minjastofnun Íslands.
- Landsbankinn. 
        - Sveitarfélög, fyrirtæki og sjóðir.


Eyðibýli áhugamannafélag  -  Síðumúla 33, 108 Reykjavík  -  Sími: 588-5800  -  Netfang: [email protected]  -  Veffang: www.eydibyli.is

mangakakalot